top of page
 • Elísabet Jónsdóttir

Dásamlegar kókosrækjur með kínóasalati

Kókosrækjur og kínóasalat eru í rauninni tveir réttir sem báðir standa vel einir og sér eða með öðru en okkur fannst þessir réttir bara passa svo vel saman að kynnum þetta sem sömu uppskriftina. Við höfum til dæmis gert kínóasalatið með lambaprime og rækjurnar væru frábærar með spagettíi. Fjölskyldan mín var yfir sig af þessum réttum, mamma sagði þetta með því betra sem hún hefði fengið og pabbi sagði okkur að breyta sko engu.

Ég fæ mikið af hugmyndum um hvað hægt væri að elda en hef því miður ekki jafn mikinn tíma til að framkvæma þær. Baldur hefur þó sem betur fer meiri tíma og finnst alveg jafn gaman að hlusta og framkvæma mínar hugmyndir líkt og sínar. Ég er mikill aðdáandi kínóa og alltaf að prófa mig áfram með það, þetta er ein af þeim hugmyndum. Við elskum bæði rækjur og mælum t.d með að blanda saman bæði risarækjum og íslenskum rækjum. Þannig er þetta aðeins ódýrara og betra, báðar tegundir koma með skemmtilegt bragð í réttinn. Annars er hægt að nota aðeins aðra tegundina líka. Þessi uppskrift var akkúrat nóg fyrir okkur sex heima hjá mér. Við nánast sleiktum pönnuna, svo það hefði mátt setja aðeins meira af íslensku rækjunum til að drýgja réttinn. Rétturinn varð sterkur hjá okkur svo ef einhverjir þola sterkt bragð illa er um að gera að setja minna af chilli.


Hráefni

Rækjur:

 • Túrmerik 1 ½ tsk

 • Paprikukrydd 1 ½ tsk

 • Hvítlaukur 4 geirar

 • Tígrisrækjur 2 pakkar

 • Kokteilrrækjur 400 g

 • Kokteiltómatar 8 stk

 • Kókosmjólk 1 dós

 • Hveiti 2 msk (má nota spelt)

Kínóasalat:

 • Blómkál 1 haus

 • Olía 2 msk

 • Túrmerik 2 tsk

 • Chilli ferskt, ½ pipar

 • Salt 3 tsk

 • Laukur 1

 • Gram masala 2 tsk

 • Karrý 3 ½ tsk

 • Kínóa 1 bolli

 • Vatn ½ bolli

 • Kókosmjólk 1 lítil dós

 • Grísk jógúrt 2 msk

 • Eplasídersedik 1 msk

 • Klettasalat 1 lítill poki

Aðferð

Gott er að byrja á því að græja blómkálið og sjóða kínóað þar sem það tekur lengri tíma en rækjurnar.

Kinóa

1. Skerið blómkálið niður í þunnar sneiðar/bita og veltið uppúr olíu, niðuskornu chilli, 1 tsk af salti og 1 tsk túrmerik

2. Setjið inní ofn í 180°c og blástur í 20 mín eða þar til hluti byrjast að brúnast, snúið reglulega

3. Skerið laukinn og setjið á pönnu með restinni af kryddunum og steikið þar til byrjar að ilma og laukur orðinn glær

4. Skolið kínóað, ég helli vanalega vatni í pott og hræri í kínóanu og tæmi svo vatnið aftur. Þetta endurtek ég þrisvar. Þetta er gert þar sem það eru efni utan um kínóað sem eru bæði bragðvond og geta valdið smá magaóþægindum.

4. Setjið Kínóa í vatn og kókosmjólkina og sjóðið við miðlungshita þar til vatnið gufar upp (Þið gætuð þurft að bæta á vatni ef kínóað er ekki soðið)

5. Takið af hitanum og bætið við grískri jógúrt. Smakkið til með salt og pipar

6. Bætið að lokum útí ediki og klettasalati

Rækjur

1. Hitið olíu á pönnu og setjið kryddinn útí og hitið

2. Næst er hvítlaukurinn skorinn smátt og honum bætt útí

3. Tígrisrækjunum er síðan bætt útí og þær steiktar í 2 mínútur

4. Næst koma kokteilrækjurnar og tómatarnir skornir til helminga

5. Steikið í aðrar tvær mínútur en bætið síðan rjómanum af kókosmjólkinni útí ( til þess að ná honum þarf mjólkin að vera köld)

6. Látið ná suðu, smakkið til og þykkið með hveitinu.
bottom of page