Hver elskar ekki indverskan mat, nei ég meina svona í alvörunni ég þekki engan. Indverskur matur er allavegana í miklu uppáhaldi, ég hef bara því miður ekki náð að mastera neina uppskrift sjálfur og þessvegna er engin slík komin hér inn, en þið megið alveg gera ráð fyrir þeim í framtíðinni. Þessi er í rauninni sú fyrsta þó Naan brauð sé auðvitað meðlæti, en mjög svo nauðsynlegt meðlæti. Þessi uppskrift er eins einföld og þær verða og ætti að vera fyrir alla byrjendur í súrdeigi sem og lengra komna. Mér finnst alltaf best að hafa hvítlauksolíu eða chili og hvítlauksolíu á Naan brauði, en það er að sjálfsögðu ykkar val hvað þið kjósið að hafa ofaná.
Hráefni
Súr 200g
Vatn 150g
Grísk jógúrt 130g
Heilhveiti 200g
Hveiti 250g
Salt 10 g
Aðferð
Blandið spriklandi súrnum sem hefur staðist flotpróf saman við vatn og jógúrt
Bætið heilhveiti og hveiti saman við og hnoðið í 5 mín (má gera í hrærivél)
Látið standa í 30 mín og bætið þá saltinu útí og hnoðið áfram í 10 mínútur eða þar til deigið stenst flotprófið
Setjið í skál með röku viskastykki yfir og inní ískáp í 12-24 klst. Má líka geyma uppá bekk í 4 klst
Takið deigið út úr ísskápnum og leyfið því að ná stofuhita
fletjið deigið út ca 5 mm þykkt. Stærðin fer eftir smekk en ég mæli með að skipta í 6-10 hluta
Setjið inní forhitaðan ofn á 300°c blástur á grill. Hafið brauðin á berri bökunarplötu í 3-5 mínútur á hvorri hlið
Takið útúr ofninum og setjið t.d. hvítlauksolíu á og berið fram.
Comments