- Elísabet Jónsdóttir
Einfalt og fljótlegt pasta með heimagerðri tómatsósu
Ég hendi oft í fljótlega rétti með því sem til er í ísskápnum frekar en að fara út og kaupa mér einhvern skyndibita, bæði finnst mér það í flestum tilfellum bragðast betur og svo finnst mér fínt að spara peninginn. Réttirnir eru oft einfaldir en ég mun þó eflaust henda nokkrum uppskriftum inn smá saman þar sem stundum er gott að grípa í svoleiðis uppskriftir þegar maður er hugmyndalaus sjálfur.
Í þetta skiptið var ég að elda fyrir mig og litlu systur mína og langaði í eitthvað frekar ferskt og var ekki í stuði fyrir hina klassísku mexikóostasósu. Ég notaði einungis ferska tómata í sósuna þar sem ég þurfti ekki að gera mikið af henni fyrir okkur tvær. Ef stækka á uppskriftina má nota tómata úr dós með eða í staðin fyrir ferska. Ég myndi mæla með að nota kirsuberjatómatana með þeim stóru þar sem þeir koma með skemmtilegt bragð í sósuna, aðeins sætara. Mér finnst einnig paprika lang best fersk svo ég skellti henni ofaná ásamt fetaostinum en heima hjá mér er sjaldnast máltíð án fetaosts.
Hráefni
Laukur 1 stk
Stór tómatur 1 stk
Kirsuberjatómatar 6 stk
Rautt pestó 1 1/2 tsk
Vatn 1/3 dL
Skinka og paprika eftir smekk
Fetaostur
Pasta
Aðferð
Saxið laukinn smátt niður og steikið á pönnu þar til hann verður glær
Skerið tómatana niður í litla bita og bætið á pönnuna
Hellið vatni yfir og látið malla
Þegar tómatarnir eru orðnir mjúkir í sósunni má bæta pestóinu útí
Smakkið sósuna til og saltið og piprið eftir smekk
Hellið sósunni yfir pastað og steikið skinkuna því næst á pönnunni og parikuna ef þið viljið hafa hana steikta frekar
Blandið saman við pastað og sósuna og skellið fetaosti yfir
