top of page
  • Elísabet Jónsdóttir

Ekta Chimichurri frá Ekvador

Updated: Jan 18, 2022

Það sem kom mér mest á óvart þegar ég bjó í Ekvador var hve milt bragð var af matnum. Matargerðin einkenndist ekki af sterkum salsasósum, miklu bragði og tacos líkt og steríótýpan gæti gefið í skyn fyrir suður- Ameríska matargerð. Hrísgrjón voru borðuð með öllu (ég er ekki að grínast ég borðaði hrísgrjón á hverjum degi meira að segja með lasagná) og svo var mikið um létt krydd, þunnt skorið kjöt ásamt fleiri góðum réttum sem týnast líklegast hérna inn með tímanum. Það var þó ein sósa sem var full af bragði og var án vafa eitt af því besta sem ég fékk þarna. Uppskriftin er fengin frá pabba vinkonu minnar en hlutföllin þarf maður að finna sjálfur, þetta er það sem við Baldur höfum verið að gera ca en sjálfsagt er að prófa sig áfram. Sósan passar, að mér finnst, með öllu. Hún er þó einstaklega góð með nautakjöti. Ég hef einnig notað hana sem marineringu fyrir lamb, sem mér fannst frábært líka. Ég á eftir að prófa hana með þorski en gæti ímyndað mér að hún ætti vel þar líka. Sósan endist í þónokkra daga ef hún er í loftþéttu íláti.


Hráefni ca

  • Fersk basilika 12 g

  • Fersk steinselja 12 g

  • Þurrkað óreganó 1 msk

  • Kúmen 1 tsk

  • Cayanepipar 1 tsk

  • Salt 1 tsk

  • Pipar 1/2 tsk

  • Vatn 100 g

  • Hvítvíns eða eplasídersedik 100 g

  • Olía 150 g

  • Hvítlaukur 2 rif

Aðferð

  1. Skerið kryddjurtirnar smátt og setjið í skál ásamt kryddunum

  2. Vætið í blöndunni með vatni og ediki, hrærið saman og látið standa í ca 30 mínútur

  3. Kremjið hvítlauksrifin og bætið við

  4. Bætið olíunni útí og látið blönduna standa í minnst sólarhring

  5. Hrærið vel saman áður en þið notið sósuna/meineringuna





bottom of page