top of page
  • Elísabet Jónsdóttir

Ekvador hrísgrjónin

Ég fór sem skiptinemi til Ekvador í heilt ár 2015-2016 (lesa má um það ævintýri hér) og lærði þar að elda ýmsa rétti, bæði kínverska þar sem fjölskyldan mín þar er hálf kínversk og auðvitað ekvadorska. Það er einn réttur þar sem ég lærði að elda sem hefur gjörsamlega slegið í gegn hérna heima. Mamma mín er einstaklega hrifin af réttinum og passar uppá að við eldum hann reglulega. Hrísgrjónin eru ekki bragðfrek en koma með skemmtilegt "twist" á hin hefbundnu soðnu hrísgrjón. Þetta er stór uppskrift og hefur dugað fyrir 6 manns. Við erum eiginlega orðin sammála um að hrísgrjónin séu best ein og sér og þá er stærðin á uppskriftinni hentug, ef nota á grjónin sem meðlæti mæli ég með því að helminga uppskriftina.


Hrísgrjónin eru oftast borðuð með þunnt sneiddu kjöti eða kjúklingi. Ég geri vanalega jógúrtsósu með (uppskrift hér) en það er auðvitað smekksatriði. Við höfum líka borið þau fram með fisk. Ég hef aðeins breytt uppskriftinni og þróað hérna heima þar sem það er ekki alveg það sama að nota hráefnin sem fást hér á klakanum og þau frá í Guayaquil þar sem nánast allt óx útí garði. Það er mikilvægt að byrja á því að sjóða baunirnar þar sem það tekur lengstan tíma og gott getur verið að leggja þær í bleyti fyrst í nokkra klukkutíma (en ég gleymi því vanalega og það hefur ekki komið að sök).


Hráefni


  • 5 dL hrísgrjón

  • 2,5 dL linsubaunir

  • 2 rauðlaukar

  • 1 paprika

  • 10 sneiðar beikon

  • 2 tómatar (eða nokkrir litlir)

  • 2 kjötteningar

  • mozzarella ostur skorinn í litla bita (má sleppa)

  • venjulegur ostur - raspaður

Aðferð


  1. Baunir teknar úr bleyti og soðnar með 1 rauðlauk sem er skorinn í helminga og ysta lagið tekið utan af honum. Hafi baunirnar ekki verið hafðar í bleyti fyrir suðu skal skola þær í sigti. Baunirnar eru tilbúnar þegar þær eru orðnar mjúkar og hægt að kremja milli fingra sér. Því næst er lauknum hent og vatnið sigtað frá. Það tekur u.þ.b klukkutíma að sjóða baunirnar.

  2. Sjóðið hrísgrjónin með kjötteningunum, gott er að miða við að hrísgrjónin séu tilbúin aðeins á undan eða svipuðum tíma og baunirnar. Það þarf að hræra í þeim reglulega í byrjun til að teningarnir leysist upp.

  3. Skerið niður grænmetið og beikonið í smáa bita.

  4. Steikið beikonið fyrst á pönnu, bætið því næst lauk við og loks papriku þegar laukurinn fer að mýkjast.

  5. Setjið tómatana út á pönnuna með lauknum, beikoninu og paprikunni og látið mýkjast.

  6. Þegar hrísgrjónin eru soðin setjið klípu af smjöri útí og hrærið og bætið beikonblöndunni af pönnunni út í með og hrærið.

  7. Hrærið baununum saman við hrísgrjónablönduna.

  8. Skerið mozzarellaost og raspið smá heimilisost og bætið við. Ég nota 3-4 perlur af mozzarellaosti og sker smátt. Gott er að byrja lítið og bæta við smá saman útí þar til maður er sáttur við bragðið.

  9. Saltið og piprið eftir smekk.






bottom of page