top of page
  • Elísabet Jónsdóttir

Kjúklingur í tómatpiparostasósu með beikoni

Updated: Aug 9, 2019

Ég er á frekar takmörkuðu mataræði núna sem kallast low fodmap í von um að magavandamál hjá mér lagist. Hluti af því sem ekki má borða á því mataræði er laukur, hvítlaukur, laktósi og hveiti sem hljómar í raun ómögulegt. Það er það þó ekki og einhvernvegin tekst mér að elda á hverju kvöldi rétti fyrir alla fjölskylduna. Það er sérstaklega gaman því það er svo sannarlega ekki skemmtilegt að vera alltaf með öðruvísi mat en allir hinir. Þessi varð til heima hjá ömmu þar sem ég var með einhverja óstjórnlega beikonlöngun og komst að því að piparostur frá Örnu og þessi hringlótti frá MS eru báðir laktósafríir og henta mínu mataræði.


Hráefni (þetta dugði mér í kvöldmat og hádegismat)


1 stk kjúklingabringa

1 tsk paprikukrydd

1 tsk túrmerik

1/4 piparostur frá Örnu eða MS

dass af laktósafrírri mjólk

3 msk tómatar í dós (eða 1 heill tómatur)

2 gulrætur

1/4 rauð paprika

Beikon eftir smekk

salt og pipar


Aðferð


  1. Raspið niður piparostinn og hitið í potti á vægum hita með dassi af mjólk. Byrjið með lítið af mjólk og bætið frekar við.

  2. Skerið því næst niður grænmetið og beikonið.

  3. Steikið beikonið þar til brúnað og setjið til hliðar. Steikið grænmetið uppúr beikonfitunni.

  4. Skerið í bita og kryddið kjúklinginn með túrmeriki og papriku. Steikið síðan á pönnu. Saltið og piprið eftir smekk. Ég setti grænmetið eftir þetta ofaní sósuna og steikti kjúklinginn á sömu pönnu en hægt er að nota aðra pönnu einnig. Ég notaði sömu pönnu til að ná fram enn meira beikonbragði.

  5. Blandið grænmetinu, kjúklingnum og sósunni saman. Ég hafði beikonið til hliðar fyrir stökkleika.

  6. Njótið með hrísgrjónum eða öðru meðlæti.


bottom of page