Baldur Sverrisson
Lambakjötbollur með ítölsku ívafi
Það er alltaf gaman að prófa nýjan mat. Við erum nýkomin heim úr þriggja mánaða bakpokaferðalagi og við vorum dugleg að prófa local matinn þar sem við vorum. Það skilaði hugmyndum af allskyns uppskriftum. Við vorum þó ekki í Ítalíu þegar ég fékk lambakjötbollur og hugmyndina af þessari uppskrift. Það var í Albaníu sem ég prófaði lambakjötbollur en þar má finna mikið af ítölskum áhrifum í matargerðinni. Lambakjötbollur eru mýkri en nautahakksbollur og ótrúlega skemmtileg tilbreyting. Við buðum upp á hrísgrjón og pasta með, bæði er gott en pastað var nú vinsælla. Í uppskriftina notuðum við heimagerða hvítlauksolíu, gerða eftir Low fodmap mataræðinu fyrir þá sem þekkja það, til að steikja laukinn uppúr en auðvitað er vel hægt að nota hvítlauksrif og venjulega olíu og ég skrifa uppskriftina með hvítlauksrifjum þar sem það er auka vinna að gera hvítlauksolíuna og algjör óþarfi fyrir þá sem þola hvítlauk. Ef þið finnið ekki lambahakk í búðinni má taka frosna lambabita (við notuðum gúllas) og setja í matvinnsluvél. Passið ykkur bara að hakka þá ekki of mikið.
Hráefni
Fyrir kjötbollurnar:
500 gr lambahakk
1 egg
40 gr parmesan ostur
1 laukur
3 hvítlauksrif
1/2 dL mjólk
handfylli steinselja
1 bolli mulið ritzkex
2 msk kartöflumjöl (má nota hveiti ef vill)
1 msk herbs de provence eða blanda af þurrkuðu oregano, basiliku, timian
salt og pipar eftir smekk
mozzarellaperlukúlur ef vill
Fyrir sósuna:
800 gr tómatar í dós
1/2 stór dós tómatpúrra
1/2 blaðlaukur
1 stk hvítlaukur
1/4 bolli rauðvínsedik
1 msk þurrkuð basílíka eða dass af ferskri
2 lárviðarlauf
1 stk fræhreinsað chilli
salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Byrjið á sósunni:
Skerið blaðlaukinn og mýkið í potti á miðlungshita.
Bætið restinni af hráefnunum útí og látið malla.
Kjötbollurnar:
Byrjið á því að saxa laukinn smátt og mýkja síðan með hvítlauknum á pönnu.
Raspið parmesanostinn og setjið út á hakkið og hrærið saman ásamt restinni af hráefnunum.
Mótið bollurnar utan um fjórðung af mozzarellaperlu og brúnið á pönnu. Ef ykkur þykir þær detta í sundur má bæta meira kartöflumjöli í hakkblönduna.
Þegar bollurnar eru brúnaðar setjið þær útí sósuna og látið malla á lágum hita með loki. Ef potturinn má fara inní ofn er líka gott að skella pottinum þangað á 180° með blæstri. Látið malla í lágmark 15 mín en verður enn betra með tímanum.
