top of page
 • Elísabet Jónsdóttir

Skemmtilegar kjötbollur með döðlum

Mér finnst döðlur tær snilld. Þær passa með svo ótrúlega mörgu og gefa oft mat skemmtilegt "twist". Mér finnst gaman að prófa mig áfram í kryddum og öðru þegar ég er að gera kjötbollur. Það er svo ótrúlega margt hægt að gera við hakk, þó maður eigi það til að grípa alltaf í sömu uppskriftina. Þessi uppskrift felur í sér nokkur aukaskref en mér finnst það alveg þess virði, enda voru allir á mínu heimili einróma um að þetta væru svo sannarlega góðar kjötbollur. Ég sauð hýðishrísgrjón og bar fram með jógúrtsósu en mömmu finnst t.d alltaf gott að fá sér súrsæta sósu eða sweet chilli sósu með. Við höfum oft átt betri myndadaga, en ég var svo spennt að koma uppskriftinni inn að ég ákvað að láta þessa mynd duga. Kisinn okkar hún Menja var ótrúlega forvitin og laumaði sér með inná myndina, henni finnst best að sitja nálægt okkur og fylgjast með því sem er í gangi, svo lengi sem við reynum ekki að koma nær henni ;).


Hráefni


 • Hakk 500 grömm

 • Egg 1 stk

 • Laukur 1 stk

 • Döðlur u.þ.b 18 meðalstórar eða eftir smekk

 • Túrmerik 1 tsk

 • Paprikukrydd 2 tsk

 • Salt og pipar eftir smekk


Aðferð

 1. Skerið laukinn og döðlurnar smátt niður og hitið olíu á pönnu.

 2. Setjið túrmerik og paprikukrydd á pönnuna og hrærið í þar til byrjar að ilma. Bætið þá lauknum saman við.

 3. Þegar laukurinn byrjar að mýkjast skuluð þið bæta döðlunum útá pönnuna með og steikið í nokkrar mínútur.

 4. Setjið laukblönduna útí hakkið ásamt egginu og hrærið saman. Saltið og piprið eftir smekk.

 5. Mótið hakkblönduna í bollur og steikið á pönnu á meðal hita þar til bollurnar eru eldaðar, mér finnst gott að hafa þær smá bleikar inní en það er auðvitað smekksatriði.
bottom of page