top of page
  • Elísabet Jónsdóttir

Steikt hrísgrjón með grænmeti og afgangs nautakjöti

Updated: Aug 15, 2019

Það er ekki óalgengt að það sé afgangur af mat heima hjá mér. Hann fer þó sjaldnast til spillis, það þykir jafn sjálfsagt að skella afgöngum saman í einhvern hrærigraut svo úr verði einhver réttur eins og að elda eitthvað nýtt frá grunni. Þessi hrísgrjónaréttur er einn af fjölmörgum réttum sem ég hendi stundum í, það er vel hægt að gera hann frá grunni en einnig en hann er sniðugur þegar maður er í stuði fyrir eitthvað annað en roastbeef úr afgangskjötinu. Auðvitað er vel hægt að sleppa kjötinu og skipta því út fyrir kjúklingabaunir t.d. steikja þær þá með lauknum og setja meira af grænmetisteningnum í staðinn fyrir villibráðarkraftinn og þá er rétturinn orðinn vegan. Rétturinn er fljótlegur í gerð, meira að segja ef sjóða þarf hrísgrjónin á meðan verið er að elda, tekur í kringum 30 mín í það heila. Ég hendi því grænmeti útí sem er til en myndi segja að laukinn og tómatana sé nauðsynlegt að nota til þess að ná fram réttu bragði.


Hráefni (uppskrift miðast fyrir 2)


1 laukur

1/2 paprika

4 kirsuberjatómatar

1 tsk villibráðakraftur

1/2 grænmetisteningur

1 hrísgrjónapoki frá tilde (125 gr)

kalt nautakjöt eða lamb, þunnsneitt og magn eftir smekk


Aðferð


  1. Sjóðið hrísgrjónin ef þarf.

  2. Skerið niður grænmetið og hafið tilbúið.

  3. Hitið pönnuna með olíu, setjið laukinn út á og steikið þar til mjúkur.

  4. Bætið paprikunni við og steikið í 3 mín. Hellið því næst 2-3 msk af vatni á pönnuna og bætið grænmetisteningnum og villikjötskraftinum út á. Setjið meira vatn ef þarf til að kryddin leysist alveg upp.

  5. Bætið loks hrísgrjónunum og tómötunum á pönnuna og steikið þar til tómatarnir hafa linast og hafa litað grjónin aðeins.

  6. Setjið í skál, setjið kjötstrimlana yfir og njótið.
bottom of page