- Elísabet Jónsdóttir
Sveppasósan hans pabba
Pabbi minn gerir bestu sósur í heimi. Ég gæti borðað þær með skeið og það hefur komið fyrir að ég hef fengið ábendingu um að vinsamlegast færa mig frá sósupottinum, það eigi að vera eitthvað eftir þegar maturinn hefst. Við vinnum mikið með “sirka” ég og pabbi og því er þessi uppskrift ekki algild, maður þarf að prófa sig áfram og smakka til. Sósan er oft með því fyrsta sem við gerum og síðan leyfum við henni að malla og kryddum eftir þörfum. Mér finnst hún passa með flestu og þetta er í raun mín “go to” sósa þegar ég er beðin um að sjá um sósugerð. Fyrsta skiptið sem ég gerði hana gleymdi ég að notast ætti við vatn og sturtaði mjólk útí. Fyrir glögga má þá sjá að uppskriftin verður þannig ekki ósvipuð jafningi. Ég fékk þó hrós fyrir hana en mun seint nota mjólkina aftur.
Hráefni
Sveppir ¾ bakki
Laukur t.d. ½ hvítur eða 3 skallottulaukar
Smjör 30 g
Hveiti 30 g (ég nota gróft spelt hveiti)
Kjötteningar 2 stk
Pipar eftir smekk (ég nota svo mikið að piparkornin sjást vel í sósunni)
Vatn (soðið í hraðsuðukatli)
Soð af því kjöti sem sósan á að vera með
Aðferð
1. Skerið sveppina niður, smjörsteikið þá og setjið til hliðar
2. Steikið laukinn í potti og setjið útí með sveppunum
3. Bætið síðan smjörinu útí og hveitinu þegar það er bráðið og hrærið þar til smjörbollan myndast
4. Leysið kjötteningana upp í heitu vatni og bætið útí pottinn, lítið í einu svo ekki myndist kekkir og hrærið stöðugt
5. Bætið svo vatni útí þar til sósan hefur nánast náð réttri þykkt eftir að hún hefur fengið að sjóða smá. Ef sósan er enn kekkjót má sigta hana til að ná þeim úr en sé þetta gert hægt og rólega og hrært stanslaust ætti hún ekki að kekkjast.
6. Skellið sveppum og lauk útí
7. Að lokum er sósan smökkuð til með pipar (sem við mælum með að notað mikið af)
8. Ef verið er að elda kjöt sem er safaríkt þá mælum við með að bragðbæta sósuna enn meir með safanum sem kemur frá kjötinu (t.d ef verið er að gera heilan kjúkling í ofni eða lambalæri)
