top of page
  • Writer's pictureBaldur Sverrisson

Súrdeigskanilsnúðar með þremur mismunandi fyllingum

Updated: Aug 29, 2019

Þegar ég var yngri fannst mér kanilsnúðar vera ágætir, bara eitt af mörgum sætabrauðum sem mér fannst gott að borða. Það breyttist hins vegar alveg þegar ég kynnist hinum Ameríska cinnabon, það var alveg nýr heimur. Nú eru kanilsnúðar eitt það besta sem ég fæ. Ég hef kynnt Elísabetu fyrir þessari ást minni á snúðum og ég gerði meðal annars þessa snúða fyrir hana í morgunmat á eins árs sambandsafmæli okkar, því jú þessir snúðar virka algerlega sem óhollur morgunverður. Það má að sjálfsögðu nota aðra fyllingu í þessa snúða en þessi hefur fallið mjög vel í kramið hjá þeim sem hafa smakkað hana. Ég kýs helst að hafa glassúr með þeim og þá oft úr rjómaosti, flórsykri og sítrónu. Þessi uppskrift er einföld enda fer mest öll vinnan fram í hrærivél en biðtíminn er þó mjög langur. Ég hef ákveðið að skrifa hér inn allar þær þrjár fyllingar sem ég hef verið að nota hvað mest. Auðvitað er hægt að nota fyllingarnar í kanilsnúða úr gerdeigi líka.


Hráefni


Deigið

  • Hveiti 250g

  • Heilhveiti 250g

  • Mjólk 150g

  • Egg 4 stk

  • Súr 200g

  • Salt 5g

  • Mjúkt smjör 200g

Fylling 1

  • Smjör 300g

  • Púðursykur 3 bollar

  • Kanill 3 msk

Fylling 2

  • Döðlur 200g

  • Heitt vatn 2dl

  • Kanill 5 msk

Fylling 3

  • Döðlur 150g

  • Heitt vatn 1 dl

  • Smjör 50g

  • Rjómaostur 100g

  • Kanill 4 msk

Aðferð

  1. Blandið saman öllu nema smjöri í hrærivél þar til deig byrjar að myndast.

  2. Stillið hrærivélina á miðlungshraða og blandið smjörinu útí smátt og smátt í einu (Þetta gæti tekið 10 mínútur eða meira).

  3. Setjið deigið í ísskáp og geymið þar t.d. yfir nótt en annars í 6-14 klst eftir því hvað hentar.

  4. Áður en deigið er flatt út skal undirbúa fyllinguna, ef sú fyrsta er notuð eru hráefnin hrærð saman í hrærvél. Í þeirri annari eru döðlurnar lagðar í bleyti í sjóðandi vatn og síðan maukaðar með töfrasprota eða í blandara og kanil síðan hrært saman við. Í þeirri þriðju eru döðlurnar undirbúnar eins og í annari fyllingunni en síðan er hinum hráefnunum bætt útí meðan það kólnar svo þau bráðni saman við en þykki fyllinguna á sama tíma

  5. Fletjið deigið út í tveimur eða fleiri pörtum. Stærðin fer eftir hve stóra snúða þið viljið fá, mér finnst best að fá stóra snúða í amerískum stíl svo ég flet mikið deig út í einu.

  6. Dreifið fyllingunni yfir útflatt deigið og rúllið því síðan upp og skerið snúða (Ég nota alltaf tvinna í það verkefni þar sem snúðarnir kremjast síður þannig)

  7. Látið snúðana hefast í 30-40 mínútur

  8. Bakið snúðana í 30-40 mínútur á 180° og blæstri



bottom of page