- Elísabet Jónsdóttir
Vinsælasta pizzan á heimilinu
Updated: Jan 12, 2019
Fjölskyldan mín hefur lengi verið með vikulegt pizzakvöld. Áleggin hafa orðið fjölbreyttari eftir því sem við systurnar þrjár urðum eldri og fyrir einhverjum árum byrjaði mamma að gera það sem við köllum núna grænmetispizzu. Hvaðan hugmyndin kom veit ég ekki en núna er ekki pizzakvöld án grænmetispizzunnar, og það liggur við að slegist sé um sneiðarnar, þá sérstaklega eftir að við byrjuðum að gera súrdeigsbotn sem fer auðvitað mun betur í magann sem þýðir að meira er hægt að borða af henni. Við setjum grænmetið í sitthvorar skálarnar þar sem hver og einn getur þá valið það sem honum finnst best en allir eru þó sammála um að einhversskonar kál, fetaostur og kasjúhnetur sé nauðsynlegt með.
Hráefni
Pizzadeig í eina pizzu t.d. súrdeigspizza
Grænt pestó eftir smekk
Skinka eftir smekk
Ostur eftir smekk
Niðurskorið grænmeti ofaná pizzu
Kál
Gúrka
Paprika
Tómatar (við notum vanalega kokteiltómata)
Annað grænmeti eftir smekk
Fetaostur
Kasjúhnetur
Aðferð
1. Fletjið degið út á plötu
2. Smyrjið pestó á botnin líkt og það væri pizzasósa
3. Næst setjið þið skinkuna og ostinn ofaná eins og þið mynduð gera ef þetta væri venjuleg pizza
4. Bakið þar til botninn er tilbúinn
5. Skerið grænmetið niður og setjið ofaná ykkar sneið eftir smekk ásamt fetaosti og kasjúhnetum
