top of page

Súrdeig

Súrdeig er í tísku einmitt núna, enda ekki skrítið, brauð gert úr því er mun bragðmeira og auðmeltanlegra en venjulegt brauð. Það er í rauninni seinni ástæðan sem olli þvi að við fórum útí þetta. Hin ástæðan er sú að Elísabet er mjög viðkvæm fyrir glúteni og það að geta gert hlutina úr súrdeigi hefur bæði bætt líðan hennar og aukið valkosti hennar í kolvetnaríkum mat. 

En hvað er súrdeig? Súrdeigsgrunnur er lifandi ger sem kemur í staðinn fyrir þurrger, pressuger eða jafnvel lyftiduft og matarsóda. Það er mikil vinna að halda úti lifandi súr, og enn meiri að byrja á súrdeigsmóður. Því getur verið sniðugt að fá „afleggjara“ hjá til dæmis bakaríi eða einhverjum sem þið þekkið. Ef þið hinsvegar hafið þolinmæðina og tímann í það að halda úti súrdeigsmóður hefst vinnan. Fyrsta spurningin er hvaða mjöl þið ætlið að nota en það mjöl sem þið notið hefur áhrif á bragð brauðsins  t.d. gefur rúgmjöl örlítinn karamellukeim á meðan hvítt hveiti hefur lítil áhrif sem gerir súrbragðið meira. Þegar þið hafið valið mjölblöndu getið þið byrjað. Finnið krukku eða box með loki og setjið jöfn hlutföll af mjöli og vatni, mælt í grömmum, útí krukkuna. Ég mæli með 50 grömmum af hvoru. Geymið krukkuna uppá bekk og endurtakið þetta á hverjum degi þar til súrinn fer að lifna við. Það getur tekið 5-14 daga. Súrinn gæti í millitíðinni lyktað ansi illa en þegar hann er til þá kemur sætur keimur af blöndunni, þá er súrinn tilbúinn til notkunnar. Það þarf þá að halda áfram að gefa súrnum að borða á hverjum degi nema að hann sé geymdur í ísskáp, þá þarf einungis að gera það á viku fresti.

Við þykjumst ekki vera einhverjir gúrúar um súrdeigsgerð. Við mælum með að þið lesið ykkur vel til áður en þið byrjið til að hafa allar upplýsingar. Ég mæli þá sérstaklega með vini mínum honum Patrick Ryan sem segir ykkur örlítið frá súrdeigsgrunni en kennir ykkur einnig að gera einfalt brauð og um rúðuprófið. Einnig er síðan Nýbakað með fullt af fróðleik um súrdeig sem og ítarlegar upplýsingar um hvernig á að gera súrdeigsmóður frá grunni.

Guðríður, súrdeigsmóðirin okkar eyðir mestum tíma sínum uppá bekk en fer þó stundum inní ísskáp þegar lítill tími er fyrir hendi. Við reynum oftast að baka um helgar þegar mestur tími er en það er auðvitað breytilegt milli fólks hvenær mestur tími er t.d. getur verið hentugt fyrir skólafólk að skreppa heim á milli tíma og gera eitt skref í einu. Guðríður hóf líf sitt sem rúgmjölsblanda en hefur fengið að prófa að vera heilhveitiblanda líka. Ég hef hinsvegar komist að því að mér finnst best að ala hana á Kornax rúgmjöli.

bottom of page