Hverjum hefur ekki langað til þess að borða Ratatouille úr samnefndri teiknimynd? Ég lét mig amk dreyma lengi þar til ég loksins ákvað að byrja að leita uppi uppskriftir. Ég var mjög hissa þegar þær uppskriftir komu upp voru ekkert í líkingu við girnilega réttinn úr teiknimyndinni. Þetta var bara einhver kássa. Þessi réttur er ótrúlega einfaldur í gerð, bragðast vel og er vegan. Það þarf lítið annað en að skutla öllu í pottinn og leyfa svo að malla í 1 og hálfa klukkustund eða lengur. Það er hægt að borða með hrísgrjónum, pasta, eintómt eða steikja egg með eða jafnvel kartöflur. Það er í raun ekkert sem stoppar mann nema hugmyndaflugið. Uppskriftin er miðuð fyrir 4.
Hráefni
1stk laukur
1 stk eggaldin
1 stk kúrbítur
1 stk rauð paprika
1 pakkning (4 stk) tómatar
1 dós tómatar í dós
1/2 tsk rauðvínsedik
1 tsk timjan
5-10 laufblöð fersk basilika (eða 1-2tsk þurrkuð)
salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Saxið laukinn smátt og steikið við meðalhita í pottinum, með olíu.
Skerið eggaldin, paprikuna og kúrbítinn í teninga, ég skar þá tilturlega gróft en það er smekksatriði.
Bætið kúrbítnum, eggaldinu og paprikunni útí pottinn með lauknum og mýkjið í 5-10 mínútur.
Bætið restinni af hráefnunum útí og látið malla í 1,5 klst eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt. Bætið við kryddum eftir smekk.
Comments