Heimagert rauðkál er eitthvað sem ég kynnti fyrir fjölskyldunni minni fyrir 6 árum síðan og
mamma hefur ekki getað verið án síðan. Rauðkál og rauðkál er ekki það sama, þið sem hafið
ekki prófað heimagert rauðkál ættuð að drífa í því, það er algerlega þess virði og ekki mjög
flókið. Ég verð ekki heima þessi jól og ég held að mamma hafi haft meiri áhyggjur af því að fá ekki rauðkál en að hafa mig ekki, það er þangað til að ég lofaði að gera það áður en ég færi. Það má minnka sykurinn í uppskriftinni ef þið eruð ekki hrifin af sætu.
Hráefni
• Rauðkálshaus 1 kg
• Græn epli 2
• Vatn 2 dl
• Sykur 200g
• Saft 2 dl (ég notaði krækiberjasaft frá ömmu)
• Eplasídersedik 1dl (má nota annað edik ef menn kjósa það frekar)
Aðferð
1. Skerið niður raukálið og eplin og setjið í pott ásamt 2 dl af vatni og sjóðið í 30-45 mínútur
2. Bætið afgangnum af hráefnunum útí og sjóðið í 15 mínútur
3. Berið fram heitt eða kalt, hvort sem þið kjósið frekar
Comments