Kaffi súkkulaðibitakökur
- Baldur Sverrisson

- 14 minutes ago
- 2 min read
Ég tók eftir því um daginn að ég hef deilt súkkulaðibitakökuuppskrift á 2 ára fresti þannig ég ákvað að halda þeirri hefð áfram.
Ég hef verið að vinna í þessari uppskrift ásamt banana-súkkulaðibitakökum í lengri tíma en ég þori að viðurkenna. Ég fattaði síðan fyrir stuttu að ég er búinn að ofhugsa þessa uppskrift alltog mikið að hún þurfi að vera eitthvað mikið öðruvísi en klassíska súkkulaðibitaköku uppskriftin mín. Þegar ég fattaði að þessi uppskrift gat verið nánast alveg eins nema með kaffi klaka, ef ég myndi bara gera kaffið ódrekkanlega sterkt. Það er aðeins lengra í banana-súkkulaðibitaköku-uppskriftina. En í millitíðini kemur ný hugmynd um hvernig hægt er að nýta súkkulaðibitakökur, ég lofa
Hráefni
Smjör 240g
Kaffi klaki 2 stk
Egg stk
Eggjarauður 2 stk
Hvítur sykur 100g
Púðursykur 180g
Próteinríkt hveiti 260g (blátt hveiti)
Salt 6g
Lyftiduft 1 tsk
Dökkt- eða suðusúkkulaði 200g
Aðferð
Byrjið á því að búa til kaffiklaka, helst úr rótsterku kaffi. Ef þið hafið ekki tíma til að frysta kaffið getið þið sett smjörið með kaffinu í kæli eða frysti í stað þess að láta það geymast upp á bekk.

Setjið smjörið á pönnuna og stillið á háan hita. Hrærið þar til það hefur bráðnað og leyfið síðan að malla þar til það er orðið gullinbrúnt. Hrærið stöku sinnum á meðan. Hellið smjörinu síðan í skál og setjið kaffiklakana útí, leyfið smjörinu og kólna meðan eggin eru þeytt.
Þeytið saman egg og sykur (ekki púðursykur, hann kemur í skrefi 5) þar til blandan verður marengskennd, ca 5 mínútur.
Þurrefnin eru þar næst mæld og þeim blandað saman í skál með niðurskornu súkkulaðinu. Þetta hjálpar súkkulaðinu að dreifast jafnar, las ég á internetinu.
Þegar smjörið hefur kólnað og er við það að ná stofuhita er púðursykurinn setur saman við. Skiptið þeytaranum út fyrir hrærarann og setjið hvert eftir öðru smjörblönduna, og hveitiblönduna. Hrærið varlega það sem þetta á ekki að blandast mikið saman. Má jafnvel hræra undir lokin með sleif
Setjið í ísskáp og geymið að lágmarki í 30 mínútur. Ég geymi að lágmarki í sólarhring og helst lengur og mæli með því. Það bætir bragðið mikið
Takið úr ísskáp og myndið kúlur með skeið eða ísskeið og setjið ínní 200°C í 11-12 mínútur - ég mæli líka með að setja sjávarsalt yfir kökurnar þegar þær koma úr ofninum.
Kökurnar geymast best í frysti.




Comments