top of page
  • Writer's pictureBaldur Sverrisson

Súrdeigslaufabrauð

Updated: Jun 30, 2019

Eins og hjá mörgum íslenskum fjölskyldum er hefð fyrir því í minni fjölskyldu að hittast á aðventunni og skera út laufabrauð. Kökurnar höfum við alltaf keypt úr bakaríi en síðan skorið og steikt sjálf. Ég ákvað þó að breyta út af vananum þetta árið þar sem mig langaði að gera tilraun með súrdeig. Kökurnar eru alveg eins og venjulegt laufabrauð nema að þær hafa þetta einstaka súrdeigsbragð. Amma Elísabetar var að spyrja mig um daginn hvort að það væri ekki hægt að gera súrdeigs soðið brauð og þá sagði ég henni að ég væri að fara að gera tilraun með laufabrauð sem yrði fyrsta tilraunin mín með djúpsteikt súrdeig. Þar sem sú tilraun heppnaðist vel megið þið gera ráð fyrir því að ég muni bjóða upp á uppskriftir af súrdeigs kleinum og soðnu brauði á nýju ári.


Hráefni

í ca 20 kökur

  • Mjólk 2 ½ dl

  • Smjör 5 tsk

  • Salt ½ tsk

  • Sykur 1 tsk

  • Hveiti 350g

  • Lifandi súr 100g

Aðferð

  1. Hitið smjör og mjólk saman þar til smjörið er bráðið og blandan er ylvolg

  2. Bætið restinni af hráefnunum útí og hnoðið þar til deigið verður slétt

  3. Skiptið deiginu í 20 jafna hluta og fletjið hvern hluta í þunna köku og skerið í fallegan hring með disk og kleinuhjóli

  4. Gerið fallegt munstur á kökurnar eins og gert er við venjulegt laufabrauð, gatið nett t.d með gafli og djúpsteikið svo þar til kökurnar verða fallega brúnar (örfáar sekúndur á hvorri hlið)







bottom of page