Það hefur verið ákveðinn vani hjá mér að koma með köku í vinnuna í hvert skipti sem ég hætti í einhverri sumarvinnunni. Samstarfsfólk mitt hefur þá verið í hlutverki tilraunadýra (þó ég myndi segja að flestar kökurnar hafi verið frábærar). Þessa köku gerði ég eitt sumarið þegar ég var með karamellu á heilanum. Ég hugsaði síðan ekkert um hana í nokkur ár fyrr en ég hitti gamlan samstarfsfélaga um daginn og hann minntist strax á þessa köku og hvað hún hafði verið góð. Vandamálið var hinsvegar að ég hafði ekkert skrifað uppskriftina niður þannig að ég þurfti að reyna að endurgera kökuna frá minni. Það heppnaðist og var kakan síðan dæmd góð þegar ég fór, jú auðvitað, með hana í vinnuna.
Hráefni
Kakan
Egg 6 stk
Sykur 200g
Púðursykur 250g
Vanilludropar 1 tsk
Hveiti 375g
Lyftiduft 3tsk
Mjólk 100g
Smjör 150g
Kremið
Mjúkt smjör 400g
Flórsykur 200g
Saltkaramellusósa 100g
Saltkaramellukurl 1 poki
Aðferð
Þeytið saman egg og sykur ásamt vanilludropum
Blandið hveitinu ásamt lyftiduftinu varlega saman við með sleikju og í kjölfarið mjólkinni og bræddu smjöri
Skiptið í tvö 20-25cm form og bakið við 180°C í 30-35 mínútur
Takið kökuna úr ofninum og kælið áður en kremið er sett á
Gerið kremið með því að þeyta saman mjúkt smjörið og flórsykur og bætið síðan saltkaramellusósunni útí og þeytið áfram þar til hún hefur blandast vel saman við
Blandið saltkaramellukurlinu saman við með sleikju og setjið kremið á kökuna
Comments