top of page
  • Writer's pictureBaldur Sverrisson

Skólabollur úr súrdeigi með vanillubúðing

Updated: Aug 8, 2019

Ég fékk norskar skolebolle (skolebød) fyrst þegar ég var svona 12 ára og í heimsókn hjá norskum skyldmennum mínum, það var þó ekki ég sem féll fyrst fyrir þessu heldur var það mamma og tók hún það upp að gera svona bollur þegar við komum heim. Hún fékk þá senda vanillufyllingu frá Noregi og notaði með víðfrægu bolluuppskriftinni sinni. Það var hinsvegar ekki oft sem hún gerði þessar bollur og eftir nokkur ár féllu þær í gleymsku á heimilinu. Það var ekki aftur fyrr en ég var að hugsa útí það um daginn hvað ég vildi gera næst úr súrdeigi sem ég mundi eftir þessum bollum. Ég breytti þá útfrá því sem mamma hafði gert og gerði meðal annars allt frá grunni og notaði deiguppskrift sem mér finnst henta betur. Ég held að dómarnir sem ég hef fengið hingað til séu einróma merki þess að þetta sé eitt það besta sem ég hef bakað. Elísabet getur ekki hætt að borða þetta og ekki mamma hennar heldur, sem bað mig einmitt um að baka svona til að eiga í frysti heima hjá henni. Ég má eiginlega ekki láta vita að ég eigi til svona bollur því annars er ástandið í frystinum eins og á opnun Lindex á Íslandi. Bollurnar lyfta sér vel, eru mjúkar og sætar og frábærar með laugardagskaffinu.


Hráefni


Bollur 20-30 stk (fer eftir stærð)

  • Súr 200g

  • Mjólk 50g

  • Grísk jógúrt 100g

  • Egg 4 stk

  • Hlynsýróp 50g

  • Púðursykur 50g

  • Hveiti 250g

  • Heilhveiti 250g

  • Salt 5g

  • Mjúkt smjör 180g

Fylling

  • Kókosmjólk 2 ½ dl

  • Vanilludropar 1 tsk

  • Eggjarauður 3 stk

  • Maizenamjöl 1 ½ tsk

  • Sykur ½ dl

  • Smjör 3 msk

Aðferð

  1. Vigtið og hrærið saman súr, mjólk og egg. Bætið síðan saman við öllu nema salti og smjöri

  2. Hnoðið saman í hrærivél í 3 mínútur en látið síðan standa í 20-40 mínútur áður en þið bætið saltinu útí og haldið áfram að hræra þar til deigið tekur að myndast

  3. Látið standa í 10 mínútur

  4. Stillið hrærivélina á lægsta hraða og bætið smjörinu útí smátt og smátt. Setjið litla búta saman við og bætið ekki næsta við þar til sá á undan hefur alveg blandast við deigið. Endurtakið þar til smjörið er búið.

  5. Setjið deigið inní ísskáp og geymið yfir nótt

  6. Takið deigið út úr ísskápnum, skiptið niður og mótið í bollur. Okkur finnst best að hafa bollurnar í stærri kantinum svo vel sé af vanillubúðing og rúlla ég því bollurnar svo þær séu u.þ.b 5 cm í þvermál sem er ca eins og tvær kjötbollur. Látið bollurnar hefast á bökunarplötu með viskastykki yfir í 40 mínútur

  7. Á meðan bollurnar eru að hefast er kjörið tækifæri til að gera vanillubúðinginn. Hitið mjólkina ásamt vanilludropunum að suðu í potti

  8. Hrærið með písk sykurinn, maizena og eggjarauðurnar saman. Athugið að smjörið fer ekki útí fyrr en seinna (í skrefi 11).

  9. Hellið mjólkurblöndunni yfir sykurblönduna og blandið saman í skál

  10. Setjið síðan blönduna aftur í pottinn og leyfið henni að þykkna á vægum hita. Hrærið stöðugt með písk og passið að hafa hitann ekki of háan, þá geta eggin bakast.

  11. Þegar hún hefur þykknað er blandan tekin af hitanum og smjörinu hrært saman við. Kælið síðan þar til þið þurfið að nota það.

  12. Takið nú bollurnar sem voru að hefast og myndið holu í miðjunni, ég notaði einn putta og þunna endan á sleif. Elísabetu finnst betra að nota tvo putta og þrýsta þannig hliðunum út til að mynda holu. Setjið búðing í holuna þannig hann nái upp að brún

  13. Bakið við 180°c og blástur í 20-25 mínútur



bottom of page