top of page
  • Writer's pictureBaldur Sverrisson

Súrdeigsskinkuhorn

Updated: Apr 18, 2019

Mér finnst þægilegt að eiga eitthvað inní frysti sem er auðvelt að grípa með í nesti eða fá sér þegar að maður kemur heim og eru skinkuhorn þá með því besta sem ég fæ. Þau taka þó sinn tíma í gerð þannig að ég tími aldrei að gera nema mjög stóra uppskrift, súrdeigsbrauð er líka svo vel að því fallið að geymast í frysti að ég þarf ekkert að vera að drífa mig að borða þau og hef ég þess vegna oft aðra hluti á sama tíma í frysti. Þessi uppskrift fæddist í einni af mínum mörgu tilraunum og voru jafnframt einn af fáum hlutum sem ég náði rétt í fyrstu tilraun sem ég er alveg mátulega stoltur af. Það má auðvitað leika sér með innihald skinkuhorna nánast eins og fólk vill, en ég vil þetta bara einfalt skinka og myrja.


Hráefni

  • Súdeigsgrunnur 200g

  • Heilhveiti 700g

  • Hveiti 450g

  • Vatn 700g

  • Salt 10g

  • Í hornin:

  • beikonmyrja 2 box

  • Skinka 1 pakki

  • Sesamfræ

Aðferð

1. Gefið súrdeigsmóðurinni að borða 7-12 klukkustundum áður en þið ætlið að nota hana, til dæmis um morguninn ef það á að baka eftir vinnu/skóla.

2. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið í hrærivél þar til það stenst rúðuprófið. Það má líka hnoða í höndunum ef þið kjósið það frekar

3. Deigið er síðan sett inní ísskáp þar sem það er geymt í 2-3 daga

4. Takið degið úr ísskápnum og skiptið í nokkra jafn stóra hluta, þetta fer eftir því hvaða stærð þið viljið hafa hornin í. Ég notaði 4 hluta, því fleiri hlutar því minni horn

5. Fletjið deigið út með heilhveiti ca 2mm á þykkt (nógu þykt til að það rifni ekki) og skerið út eins og pizzu

6. Setjið myrjuna á breiðari endann ásamt niðurskorinni skinku og rúllið upp, byrjið á breiðari endanum. Það má líka bæta við t.d rifnum osti, pepperóni eða öðru sem ykkur finnst gott

7. Penslið hornin með til dæmis eggi eða mjólk og stráið semsamfræjum yfir.

8. Setijið inní forhitaðan ofn á 220 gráður og blástur í ca 15 mín eða þar til hornin eru gullinbrún og bökuð





bottom of page