top of page
  • Writer's pictureBaldur Sverrisson

Súrdeigssmjördeig

Smjördeig er eitthvað sem mig langaði lengi að gera og eftir að ég gerði það var ég hálf svekktur yfir að hafa ekki gert það fyrr. Ég hafði einhverntíman alltaf séð þetta sem eitthvað miklu flóknara en það er í raun, enda var altaf verið að segja það við mig. Þetta er þó ekki auðvelt en mun einfaldara en ég átti von á, þetta tekur aðallega bara langan tíma en stærstur hluti hans fer þó í bið þannig þetta er fínt helgarverkefni. Ég ákvað síðan að flækja þetta aðeins með því að bæta súr útí og gera þetta þar með auðmeltanlegra og auðvitað bragðbetra. Það eru alltaf svo margir hlutir sem mig langar að gera úr smjördegi en mér hefur alltaf fundist frekar dýrt að kaupa það og svo finnst mér frekar leiðinlegt að stytta mér leið í eldhúsinu. Núna er ég bara að velja hvað ég geri næst. Þessi uppskrift er upphaflega af https://thefutilegourmet.com/2017/08/28/sourdough-puff-pastry/ en ég bætti þó heilhveiti útí vegna þess hvað mér finnst það gefa gott bragð.


Hráefni


Deigið

  • Hveiti 4 bollar

  • Heilhveiti ½ bolli

  • Kalt smjör 6 msk

  • Salt 1 tsk

  • Virkur súr 1 ½ bolli

  • Vatn 1 bolli

Smjörmiðjan

  • Mjúkt smjör 680g

  • Hveiti ¾ bolli

Aðferð

1. Blandið öllum hráefnum úr deginu saman og hnoðið í 2-3 mínútur eða þangað til blandan fer að líkjast deigi. Vefjið plastfilmu utan um deigið og kælið síðan í ísskáp í lágmark 30 mínútur

2. Blandið saman smjörinu og hveitinu. Setjið á bekk með hveiti á og mótið lauslega í ferning ca 25x18 cm. Vefjið svo í plastfilmu og setjið inní ísskáp í lágmark 30 mínútur

3. Takið deigið úr ísskápnum og fletjið út ca 40 cm á hvora hliðina

4. Leggjið smjörmiðjuna ofaná og leggjið hitt yfir þannig það verði alveg lokað

5. Notið bökunarkefli til að þrýsta ofaná og loka vel, fletjið deigið síðan út ca 50x30 cm

6. Brjótið deigið síðan saman þrisvar og setjið í ísskáp í 20 mín

7. Fletjið deigið út og brjótið saman 5 sinnum í viðbót, geymið inní ísskáp í 20 mín eftir hver 2 skipti

8. Geymið að lokum í ísskáp í 1 klst eða yfir nótt

9. Nú er deigið þitt tilbúið til notkunar. Þú getur notað það til dæmis í croissant, eplaköku eða Wellington steik. Það munu líka koma hér inn fljótlega nokkrar af mínum eigin uppskriftum úr smjördeigi



bottom of page