top of page
  • Writer's pictureBaldur Sverrisson

Babka með súkkulaðifyllingu

Updated: Jul 23, 2020

Ég vil bara segja það strax að þessi uppskrift er ekki jafn fólkin og hún lítur út fyrir að vera. Hún er í rauninni sára einföld. Hún er líka mjög góð. Brauðið sjálft er mjúkt og gott og svo er hægt að leika sér endalaust með fyllingar. Ef þið viljið gera þessa uppskrift enn einfaldari til dæmis má skipta súkkulaðifyllingunni út fyrir Nutella, þó ég mæli eindregið með þessari fyllingu. Ég hef líka gert súrdeigsútgáfu af þessari uppskrift með eplafyllingu.


Hráefni


  • Mjólk 110g

  • Púðursykur 40g

  • Ger 5g

  • Blátt Kornax hveiti 300g

  • Egg 2 stk

  • Salt 1/2 tsk

  • Smjör 70g


Fylling

  • Rjómi 1dl

  • Púðursykur 20g

  • Sykur 20g

  • Klípa af salti

  • Suðusúkkulaði 100g

  • Smjör 60g

  • Vanilludropar 1tsk

  • Flórsykur 1msk

  • Kakó 1msk


Aðferð

  1. Hitið mjólkina að suðu og blandið svo saman við eggin ásamt púðursykri og geri, látið standa í 5 mínútur.

  2. Blandið síðan öllu saman við nema smjöri og hnoðið í hrærivél í ca 5 mínútur eða þar til deigið kemur saman og byrjar að losna frá botninum, látið síðan standa í 15 mínútur.

  3. Hnoðið síðan deigið á miðlungslágri stillingu og bætið smjörinu smám saman við. Hnoðið síðan í auka 5 mínútur eftir að smjörið kemur saman við.

  4. Látið hefast uppá bekk í 2klst og berjið síðan loftið úr deiginu með því að þrýsta hnefanum niður á það einu sinni. Geymið síðan í ísskáp yfir nótt.

  5. Takið úr ísskáp og fletjið út líkt og þið væruð að gera kanil- eða pizzasnúða. Passið að fletja deigið ekki of þunnt því þá verður erfiðara að flétta það

  6. Dreifið fyllingunni á útflett deigið og rúllið upp líkt og með fyrrnefnda snúða.

  7. Skerið síðan rúlluna langsum og fléttið saman.

  8. Setjið í jólakökuform og penslið með eggja-mjólkurblöndu og látið hefast í 2 klst.

  9. Bakið við 180°C í 30-35 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í kemur hreinn út.

Fylling

  1. Hitið saman rjóma, sykur og púðursykur þar til sykurinn bráðnar og síðan að suðu.

  2. Brjótið súkkulaðið í skál ásamt smjöri, salti og vanilludropum.

  3. Hellið heitri rjómablöndunni yfir og leyfið súkkulaðinu og rjómanum að bráðna og hrærið síðan saman.

  4. Bætið saman við flórsykri og kakó.




bottom of page